top of page

Stefnumál Kórdrengja

Jafnréttisstefna

Stefna Kórdrengja í málum jafnréttis kynja, kynþátta, fordóma og eineltis.

 1. Kórdrengir leggja mikla áherslu á að allir eigi jafnan rétt til þátttöku í íþróttum hjá félaginu og fordæmir fordóma af öllu tagi.

 2. Fordómar eru þegar einhver er áreittur, útilokaður, sniðgengin(n) eða mismunað vegna útlits, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kynferðis, kynhneigðar, skoðana, trúar, fötlunar, efnahags eða annarra aðstæðna.

 3. Félagið beinir því til starfsmanna og þjálfara félagsins að uppfræða iðkendur um að allir hafi jafnan rétt og að þjálfarar ræði við iðkendur um líðan þeirra.

 4. Einnig skal þjálfari fylgjast vel með samskiptum iðkenda sín á milli og grípa inn í telji hann að um fordóma / einelti sé að ræða. Í því sambandi er vakin athygli á eineltisstefnu félagsins þar sem fram koma leiðbeinandi reglur vakni grunur um að slíkt eigi sér stað.

 5. Öll skilaboð sem sýna kynþáttafordóma skulu fjarlægð strax.

 6. Félagið leggur mikla áherslu á að allir eigi sama rétt á að sækja um vinnu hjá félaginu og skulu allar umsóknir metnar með tilliti til þess.

 7. Félagið leggur mikla áherslu á samskipti iðkenda við aðra iðkendur, foreldra, dómara, þjálfara, keppinauta og aðra sem koma að starfinu. Iðkendur skulu sýna heiðarleika og virðingu gagnvart öllum sem koma að starfinu.

 8. Tekið er hart á öllum agabrotum sem lýsa sér í niðrandi ummælum og óíþróttamannslegri hegðun innan vallar sem utan.

 9. Öll hegðun sem stríðir gegn stefnu þessari verður ekki liðin og getur leitt til brottvikningar úr félaginu og til þess að mál séu send til lögreglu.

Fordómar

Fordómar eru þegar einhver er áreittur, útilokaður, sniðgengin(n) eða mismunað vegna útlits, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kynferðis, kynhneigðar, skoðana, trúar, fötlunar, efnahags eða annarra aðstæðna.

Til að koma í veg fyrir fordóma hvetja Kórdrengir iðkendur sína til að:

 • Taka ekki undir með þeim sem lætur í ljós fordóma.

 • Biðja gerandann um að setja sig í spor þess sem hann fordæmir.

 • Fræða gerandann.

 • Koma fram við aðra eins og við viljum að það sé komið fram við okkur.

Muna að þeir standa ekki einir ef þeir verða sjálfir fyrir fordómum. Best er að reyna að finna einhvern sem stendur með sér, veitir stuðning og hægt er að tala við. Það geta verið vinir, foreldrar eða þjálfarinn, einhver sem má treysta.

Einelti

Einelti er að ofsækja einhvern með endurtekinni stríðni, illkvittni og uppnefnum eða með ógnandi, árásargjarnri framkomu og útilokun frá félagsskap.

Til að koma í veg fyrir einelti hvetja Kórdrengir iðkendur sína til að:

 • Taka ekki þátt í eineltinu.

 • Biðja gerandann að setja sig í spor þess sem hann leggur í einelti.

 • Sýna þeim sem verður fyrir eineltinu stuðning með því að ganga til liðs við hann/hana og mótmæla svona framkomu.

 • Koma fram við aðra eins og við viljum að það sé komið fram við okkur.

 • Muna að aðgerðarleysi frammi fyrir einelti má túlka þannig að eineltið sé samþykkt.

Muna að þeir standa ekki einir ef þeir verða sjálfir fyrir einelti. Best er að reyna að finna einhvern sem stendur með sér, veitir stuðning og hægt er að tala við. Það geta verið vinir, foreldrar eða þjálfarinn, einhver sem má treysta.

Siðarreglur Kórdrengja:

Stjórnarmaður og starfsmenn: 

 • Félagsmenn eiga að standa vörð um anda og gildi félagsins og sjá um að hvoru tveggja lifi áfram meðal félagsmanna.

 • Kemur fram við alla félagsmenn sem jafningja, óháð kyni, getu, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, litarhætti og kynhneigð.

 • Viðhefur ávallt lýðræðisleg vinnubrögð.

 • Upplýsir félagsmenn og gerir þá að þátttakendum í ákvarðanatöku innan félagsins.

 • Er til fyrirmyndar hvað varðar hegðun og framkomu innan félags sem utan.

 • Ber ábyrgð gagnvart félaginu og iðkendum.

 • Er meðvitaður um að félagið byggir upp og mótar einstaklinga.

 • Rekur félagið eftir löglegum reiknisskilaaðferðum og hagar útgjöldum í samræmi við tekjur.

 • Notfærir aldrei stöðu sína hjá félaginu til eigin framdráttar á kostnað félagsins.

 • Nýtir gagnrýni félagsmanna til uppbyggingar í félaginu.

Þjálfari:

 • Kemur fram við alla iðkendur á einstaklingsgrunni og út frá þeirra forsendum.

 • Velur æfingar, mót, keppnir sem eru við hæfi iðkenda með tilliti til aldurs, reynslu og hæfileika.

 • Styrkir jákvæða hegðun og framkomu iðkenda.

 • Heldur á lofti heiðarleika innan íþróttarinnar.

 • Kennir iðkendum að viðurkenna og bera virðingu fyrir ákvörðunum dómara.

 • Kennir iðkendum að bera ábyrgð á eigin hegðun og framförum í íþróttinni.

 • Er heiðarlegur, jákvæður, réttlátur og umhyggjusamur gagnvart iðkendum.

 • Viðhefur jákvæða gagnrýni og forðast neikvæða gagnrýni.

 • Hugsar ávallt um heilsu og heilbrigði iðkenda og varast að setja þá í aðstöðu sem gæti ógnað heilbrigði þeirra.

 • Talar gegn notkun ólöglegra lyfja.

 • Talar gegn neyslu áfengis og tóbaks.

 • Leitar eftir samstarfi við aðra þjálfara eða sérfræðinga þegar þess þarf.

 • Viðurkennir rétt iðkandans til að leita ráða frá öðrum þjálfurum.

 • Samþykkir aldrei ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.

 • Forðast náið samband við iðkendur og forðast að vera einn með iðkanda.

 • Þarf  leyfi forráðamanna yngri iðkenda til að aka þeim á æfingar eða í leiki.

 • Er meðvitaður um hlutverk sitt sem fyrirmynd bæði utan og innan vallar.

 • Kemur eins fram við alla iðkendur óháð, getu, kyni, kynþætti, stjórnmálaskoðunum, trúarbrögðum og kynhneigð.

 • Notfærir sér aldrei aðstöðu sína sem þjálfari til að uppfylla eigin áhuga á kostnað iðkandans.

 • Er ábyrgur á félagslegri, andlegri og líkamlegri uppbyggingu iðkenda.

 • Hlustar eftir skoðunum iðkenda og fer eftir þeim þegar við á.

 • Er ábyrgur fyrir stemmingunni í hópnum.

 • Er börnum fyrirmynd í því að taka ósigri með jafnaðargeði, taka sigri hrokalaust og sýna andstæðingum kurteisi.

Iðkandi

 • Gerir alltaf sitt besta.

 • Virðir alltaf reglur og venjur varðandi heiðarleika í íþróttum.

 • Sýnir öllum iðkendum virðingu, samherjum sem mótherjum.

 • Ber virðingu, er  heiðarlegur og opinn gagnvart þjálfurum og forystufólki félagsins sem ber ábyrgð á sér  við æfingar og keppni.

 • Forðast neikvætt tal eða niðurlægjandi köll um samherja, mótherja, dómara, þjálfara eða starfsmenn félagsins.

 • Kemur fram við aðra eins og hann vill að aðrir komi fram við sig.

 • Sýnir stundvísi við mætingar á æfingu, í keppni og í annað sem viðkemur félaginu.

 • Virðir ákvarðanir dómara og annarra starfsmanna leiksins eða mótsins.

 • Sýnir aldrei ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.

 • Ber virðingu fyrir hæfileikum og getu annarra.

 • Tekur ábyrgð á framförum sínum og þroska.

 • Er til fyrirmyndar í framkomu og hegðun innan sem utan vallar.

bottom of page